Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Ég er farin að hallast að því að snáðinn okkar eigi í erfiðleikum með sjálfsmyndina. Hann heldur örugglega að hann sé hundur því hann nagar allt. Það er enginn áhugi hjá snáðanum á öllu nagdótinu lengur heldur er það besta sem hann veit þegar hann nær að standa upp með sófanum og naga sófaarminn eða nær í sandalana mína og nagar franska rennilásinn á þeim. Og ef svo óheppilega vill til að fólk átti sig ekki nógu fljótt á hvað hann klæjar í gómana þá er það í stórhættu. Það hafa nokkuð margir lent í gininu á honum að ótöldum dauðlegum hlutum og nokkrir oftar en einu sinni. Sylvía litla systir mín var einstaklega "heppin" með þetta meðan hún var hjá mér og var hún einu sinni bitin til blóðs á fingri, einu sinni í öxlina, einu sinni í lærið og einu sinni í kinnina. Systurnar eru farnar að átta sig á hættu þess að verða bitin eða hárreytt en þær eiga ekki auðvelt með að læra af reynslunni. Í dag var Dagbjört hárreytt og fór að gráta, Kolbrún bitin tvisvar, einu sinni í puttan og einu sinni í vörina þegar hún ætlaði að kyssa litla bróður bless. Sesselja greyið lenti langmest í honum í dag, hún var bitin nokkrum sinnum, hárreytt svakalega og er nærri sköllótt eftir hann og keyrt yfir hana nokkrum sinnum á göngugrindinni. En hann ætlar bara að vera góður og verður svo svekktur þegar allir fara að skæla undan honum.
Ég fann þessa frábæru síðu þar sem ég finn skapkall fyrir hvern dag alveg frítt! Og þessir skapkallar eru bara alveg eins og ég.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Ég var rekin úr rúminu mínu rétt upp úr fimm í morgun eftir tæplega klukkutíma baráttu við þrjósku sonarins. Ég held að hann hafi ekki bara vakið okkur heldur nágrannana líka. Hann vaknaði rétt eftir fjögur og þar af leiðandi skal kerlingin líka vakna og gefa hans hátign að borða og leika við hann. Ég var vægast sagt ekki í stuði.
Núna er snáðinn að drepast úr þreytu en þrjóska hlaupin í kerlu og ekkert hlustað á að fara að lúra sér neitt. Hann er ekki sáttur, vægast sagt.
Ég er að spá í að skella skilti á húsið þar sem tekið er fram að það er ekki verið að pína barn hérna heldur sé bara valdabarátta og þrjóskukeppni í gangi milli móður og sonar. Það er ekki útséð hvort vinnur því bæði eru jafnfrek.

mánudagur, apríl 25, 2005

Ég er að spá í að fara að þrífa hérna og ég ætla að kaupa svona þrifefni næst þegar ég fer í búð.
Mig dreymdi alveg ferlega furðulegan draum í nótt.
Jónsi minn var kóngur í voða stórri höll og ég var að giftast honum. Brúðkaupið sjálft var ekkert minnistætt en þegar leið að brúðkaupsnóttinni fékk ég einkaþernu til að aðstoða mig við að gera hana einstaklega minnistæða. En þegar ég gekk inn í rekkju kóngsa í mínum kynæsandi og konunglega undirfatnaði lá Jónsi minn með kórónuna sína á kollinum, glott á vörum og kynningarfulltrúann sinn við hliðina á sér. Var mér tilkynnt að ef einhverjar æfingar ættu að eiga sér stað fengi hún að vera með. Hún var ljóshærð og falleg og ég fór í fýlu. Í einhverju svakalegasta dramakasti sem ég hef á ævi minni fengið ákvað ég að yfirgefa kóngsa og frillu og rauk til rekkju minnar til að pakka niður. Þar var allt í einu komin lyfta sem opnaðist og Pétur frændi kom til að hjálpa mér og hann hélt á íþróttatösku, svona eins og Jónsi notar undir fótboltadótið sitt. Það voru svona númeralásar á næstum öllum dyrum og hurðarnar alltaf læstar og var lykillinn eitthvað sem tengdist Jónsa mínum. Fyrsti lykillinn var 1107 sem er náttúrulega bara afmælisdagurinn hans, næsti var 1974 sem er fæðingarárið hann og svo var heljarvesin með þriðja lykilinn því mér datt ekkert í hug. Og sú tala er ekkert sem tengist mínum heittelskaða og ég veit ekkert af hverju þessi tala var lykillinn. 2712. Ég er ekki að fatta ennþá hvaða tala þetta er. Þjónustuliðið í kastalanum var ekki samstarfsfús við okkur Pétur frænda og komu með hverja gildruna á fætur annarri og við enduðum oftast í rekkju konungs þar sem hann var að gamna sér við kynningarfulltrúann.
Ég veit að ég þarf engar áhyggjur að hafa að undirmeðvitundin sé að segja mér eitthvað því Jónsi er ekki með kynningarfulltrúa.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.
Ég veit að þessi kveðja kemur nokkrum dögum of seint en ég er orðin svo heiladauð á þessu bloggi að það hálfa væri nóg. Ég hef ekkert að segja þó að frá mörgu sé að segja.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Ég hef verið tölvulaus svo lengi að ég kann ekkert lengur á þetta apparat. Það tók mig smátíma að fatta hvernig maður setur nýja færslu inn og muna passvördið. En það er ekkert að frétta af mér annað en gott, heimilið er skínandi hreint og fínt þrátt fyrir 2 aukabörn. Litlu systur mínar komu til mín í þá daga sem mamma verður úti í Köben að dekra Kidda. Ég verð nú að viðurkenna að ég á ekkert allan heiðurinn af því að húsið sé hreint því hún litla systir mín er svoddan snyrtipinni að ég tók allt til og þreif áður en hún kom svo ég þyrfti nú ekki að hlusta á skammarræðuna frá henni. Hún hefur algjörlega séð um að halda því við og rekið mig áfram með harðri hendi.
"Hulda mín, þarftu ekki að fara að ryksuga hérna?"
"Hulda mín, það er komið að því að fara að elda."
"Hulda mín, þarftu ekki að setja í þvottavél?"
Hún er algjör engill, ég hef ekkert þurft að skipta á Karli síðan hún kom.
En myndaþrautin hérna á undan er af manneskju sem er mér algjörlega óskyld né þekki ég eitthvað til hennar. Bara mynd sem ég rakst á.

föstudagur, apríl 01, 2005

Nú er spurningin þessi: Er þessi mynd af mér eða ekki?