Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, desember 24, 2004

Aðfangadagur jóla er einmitt í dag, ég segi það, ég segi það... Guð gefi ykkur gleðilega hátíð. Orðsending til þeirra sem ég gleymdi að senda jólakort...þetta er ekkert persónulegt. Gleðileg jól allir!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Hvernig ætli sú "regla" að það megi ekki syngja við matarborðið hafi komið til? Ég hef velt þessu fyrir mér í hvert sinn sem ég banna stelpunum mínum að syngja á matmálstímum. Eins og það er krúttlegt að heyra sungið af innlifun og öllu hjarta þó vita laglaust og rammfalskt sé þá getur það skorið mann að innan eins og þúsund illa bitlaus rakvélarblöð þegar maður er þreyttur og úttaugaður. Þess vegna held ég að þessi "regla" sé tilkomin af þreyttum, úttauguðum foreldrum frekar en einhverjum siðareglum um hvernig skal haga sér við borðhald. Þó vil ég taka það fram að mér þótti það bara krúttlegt núna áðan að þær reyndu að syngja við matarborðið en vegna þess að það má ekki skiptu þær orðunum í laglínunum á milli sín. En gleymdu sér annað slagið. Segðu...Mér...Eitthvað...Sniðugt...Og syngdu...Eitthvað...Lag...
Gerðu það...Gerðu það...Aðfangadagur jóla...Er einmitt...Í dag...Og við syngjum saman lag. Bara sætt.

sunnudagur, desember 19, 2004

Það er tæp vika í hátíð ljóss og friðar og allir á heimilinu komnir í jólafrí. Jónsi hefur haft orð á því nokkrum sinnum undanfarna daga að þessi aðventa sé miklu auðveldari og þægilegri en í fyrra því ég er ekki eins stressuð... Verum ekkert að sykurhúða það, ég var hálfgeðveik í fullkomnunaráráttunni í fyrra og gerði heimilisfólki erfitt fyrir að njóta aðventunnar. En núna er ekkert stress á húsfreyjunni og allt líður sína ljúfu leið. Heimilið er ekki eins hreint og ég vil hafa það en prfh... það verður það aldrei hvort eð er því það búa hérna sex manneskjur og þar af fjögur börn svo það er borin von að það verði hreint og haldist þannig.
Annars er voða fátt að frétta nema amma mín er á spítala. Hún fékk fyrir hjartað og er mjög lasin og læknarnir vilja fylgjast vel með henni. Ég er ekki alveg að vilja ná því að sú gamla verði kannski ekki heima um hátíðirnar því við vorum búin að ákveða að hafa jólin uppfrá hjá þeim. Í fyrra voru þau hérna niðurfrá hjá okkur og það var svo notalegt hjá okkur, en núna er ekki pláss fyrir alla hérna þannig að þetta var ákveðið svo við gætum verið öll saman. Mér finnst nú ekkert jólalegt að hafa enga ömmu til að skipa mér fyrir. Ég verð eins og hauslaus hæna ef hún kemur ekki heim fyrir jól.

fimmtudagur, desember 16, 2004

HRÓLFUR OG ERLA

Hrólfur og Erla voru vistmenn á geðsjúkrahúsi. Dag einn, er þau voru á gangi við sundlaugina kastaði Hrólfur sér útí og sökk til botns. Erla stakk sér útí laugina og bjargaði Hrólfi frá drukknun.

Þegar yfirlæknirinn frétti af björgunarafreki Erlu ákvað hann að útskrifa hana af sjúkrahúsinu, þar sem hún væri greinilega búin að ná snerpu og andlegu jafnvægi á ný.

Daginn eftir fór hann til fundar við Erlu til að boða henni fréttirnar og sagði þá; " Erla mín, ég hef bæði góðar og slæmar fréttir að færa þér! Góða fréttin er að ég ætla að útskrifa þig af spítalanum þar sem þú hefur sýnt merki um bata, sem sýnir sig í því að þú bjargaðir honum Hrólfi frá drukknun. Slæma fréttin er hins vegar sú að hann Hrólfur er dáinn. Karlgreyið hengdi sig í beltinu sínu í gærkvöldi eftir að þú hafðir bjargað honum."
Þá sagði Erla; "Hrólfur hengdi sig ekki. Ég festi hann upp til þerris í gærkvöldi. En hvenær má ég fara heim sagðirðu ?"

mánudagur, desember 13, 2004

Ég átti afmæli í gær og varð ég 28 ára og er enn þreytt húsmóðir. Vil samt taka það fram að ég er roknaskvísa þrátt fyrir aldurinn. Nenni samt ekki að blogga núna því ég er með veikt barn sem krefst þess að ég hætti í tölvunni...

mánudagur, desember 06, 2004

Ég hef geinilega lagt mikið á mig til að halda skipulaginu því ég lagðist í veikindi um leið og fyrsta áfanga var lokið. Varð ég svo kvefuð að heilinn var á góðri leið út um nefið á tímabili og hafði ég ekki undan að snýta og þurrka nebbann minn. Það má því segja að ég sé komin í jólaskapið því ég lít út eins og Rúdolf. Þá hefði ég viljað geta gert svona frekar...