Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, desember 19, 2004

Það er tæp vika í hátíð ljóss og friðar og allir á heimilinu komnir í jólafrí. Jónsi hefur haft orð á því nokkrum sinnum undanfarna daga að þessi aðventa sé miklu auðveldari og þægilegri en í fyrra því ég er ekki eins stressuð... Verum ekkert að sykurhúða það, ég var hálfgeðveik í fullkomnunaráráttunni í fyrra og gerði heimilisfólki erfitt fyrir að njóta aðventunnar. En núna er ekkert stress á húsfreyjunni og allt líður sína ljúfu leið. Heimilið er ekki eins hreint og ég vil hafa það en prfh... það verður það aldrei hvort eð er því það búa hérna sex manneskjur og þar af fjögur börn svo það er borin von að það verði hreint og haldist þannig.
Annars er voða fátt að frétta nema amma mín er á spítala. Hún fékk fyrir hjartað og er mjög lasin og læknarnir vilja fylgjast vel með henni. Ég er ekki alveg að vilja ná því að sú gamla verði kannski ekki heima um hátíðirnar því við vorum búin að ákveða að hafa jólin uppfrá hjá þeim. Í fyrra voru þau hérna niðurfrá hjá okkur og það var svo notalegt hjá okkur, en núna er ekki pláss fyrir alla hérna þannig að þetta var ákveðið svo við gætum verið öll saman. Mér finnst nú ekkert jólalegt að hafa enga ömmu til að skipa mér fyrir. Ég verð eins og hauslaus hæna ef hún kemur ekki heim fyrir jól.