Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, desember 17, 2006

Ég er flutt í smá stund... kannski til frambúðar.
Hér er ég núna.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Ég á afmæli í dag,
ég á afmæli í dag,
ég á afmæli ég sjálf,
ég á afmæli í dag.
Ég er þrítug í dag,
ég er þrítug í dag,
ég er þrítug ég sjálf,
ég er þrítug í dag.

Það var haldin veisla á sunnudaginn og var boðið í mat. Jónsi stóð sveittur við eldamennsku allan sunnudaginn og reiddi fram hvern snilldarréttinn á fætur öðrum. Það var lambahryggur með einhvurslags hátíðargratíneringu, læri með kryddblöndu a'la Jónsi, steiktar rjúpur og soðnar rjúpur með öllu tilheyrandi. Svo vorum við með ís og yndislega góðri íssósu og berjum í eftirrétt. Nánustu ættingjum og vinum var boðið og það reyndu sem flestir að mæta, þeir sem mættu ekki voru alla vega með haldgóða afsökun og ég býst bara við stærri jólapakka frá þeim í staðinn. Þeir sem mættu áttu með mér góða kvöldstund og hlýjuðu mér um hjartaræturnar. Ég er umvafin góðu fólki og met það mikils að eiga svona góða að.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Allir foreldrar vita að þegar það er þögn í húsinu bendir það til að börnin séu að gera eitthvað sem er bannað. Áðan ríkti þögn hérna og ég var alveg viss um að það væri eitthvað í gangi svo ég gólaði í elstu dótturina til að tékka á aðstæðum. Svarið sem ég fékk kom mér til að brosa. Karl er að greiða Sesselju með Barbíbursta... Ef börnin mín eru ekki yndisleg eru engin börn það.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Ég hlakka til jólanna en það eru svosum engar fréttir í sjálfu sér en ég nenni ekki að þrífa og baka og skreyta og vesinast... Ætli ég geti fengið au-pair með stuttum fyrirvara? Ráðast au-pair stelpur til skemmri tíma en eins árs?
Það væri nú saga til næsta bæjar ef ég færi að lifa eins og konugreyið sem Gunna frænka vinnur hjá. Hún er með ráðskonu, au-pair, barnsfóstru, bílstjóra, einkaþjálfara og aðstoðarkonu. Verst að ég er ekki prinsessa... Mér hefur þótt það leitt í þó nokkurn tíma að vera ekki prinsessa því ég er sköpuð í það hlutverk.
Ég á bráðum þrítugsafmæli og ég asnaðist til að vera að bjóða til veislu í tilefni af því... af hverju í andskotanum var ég að því? Nú þarf ég að fara að þrífa og baka.
Ég léttist um þrjú tonn af sandi í dag... Það er rosalega góð tilfinning að vera skuldlaus. Að vísu skuldum við ennþá húsið og eitthvað af bílnum en eru það alvöru skuldir?

mánudagur, desember 04, 2006

Svo ég haldi nú áfram að opinbera dreifbýlistúttuna í sjálfri mér hérna þá smakkaði ég í fyrsta sinn drekaávöxt. Mér finnst þetta hinn fallegasti ávöxtur, litalega séð, en bragðið fannst mér til að byrja með frekar dauft en þegar leið á átið óx áfergja mín því eftirbragðið er assgoti gott. Hagkaup hefur nú haft þessa tegund af ávöxtum og margar fleiri framandi tegundir til sölu í verslunum sínum í þónokkurn tíma. Þar sem þeir eru nú ekki með útibú á Eskifirði eru þessi góðgæti þó nokkuð sjaldséð af túttum eins og mér.
Meðan ég át þennan framandi ávöxt varð mér hugsað til skaparans, einhverra hluta vegna, og ég dáðist að snilli hans til að skapa einmitt svona ávöxt og kímdi yfir nafninu Drekaávöxtur... Sem mér finnst benda sterklega til þess að Guð hafi skapað dreka líka. Hvort þeir hafi síðan getað flogið og spúð eldi er annað mál en ég er nokkuð viss um að drekar séu til.

sunnudagur, desember 03, 2006

Ég er að upplifa mig sem algjöra dreifbýlistúttu þessa dagana... Ég stend sjálfa mig stöðugt að því að standa eins og þvara í miðri verslun og glápa í forundran á fólk, svona eins og ég hafi aldrei séð svoleiðis fyrirbæri áður. Jólaösin er byrjuð hér í borginni og hugarfar skortsins er að tröllríða borgarbúum. Það er nánast eins og allir séu reknir áfram af ótta um að allar vörur klárist í dag fyrir klukkan fjögur. Það hefur verið stigið á tærnar á mér, mér hefur verið hrint, það hefur verið hrifsað úr höndunum á mér og það hefur verið ruðst fram fyrir mig að vöruhillu (takið eftir að ég er ekki að tala um að ryðjast fram fyrir í biðröð á kassa). Botninn rak þó alveg í dag þegar leið mín lá í Smáralindina því þar voru umferðarverðir sem sáu um að allt færi fram í friði og spekt á bílastæðum verslunarmiðstöðvarinnar...
Þarf ég nokkuð að taka það fram að starfsmenn verslanna eigi samúð mína alla þessa daga fram að jólum?

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Ég er búin að búa í nýja húsinu mínu núna í tæpt hálft ár og það er loksins núna sem ég er farin að finna fyrir einhvurslags hreiðurgerðartilfinningu. Mig langar svo að gera eitthvað flott við gluggana í stofunni... svona eitthvað sem enginn annar er með. En ætli ég byrji ekki að útfæra allar hugmyndirnar í kollinum á mér eftir að ég er búin að þrífa pleisið. Bara verst að það gengur seint að venja börnin á að sitja kyrr.