Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, febrúar 29, 2004

Ætli kvenfólk til forna, t.a.m. Snæfríður Íslandssól, sem var talin fegursta kona á öllu Íslandi samkvæmt Íslandsklukkunni, hafi rakað sig undir höndunum og á fótunum? Það er allavega búið að koma því inn í okkur nútímaskvísur að loðið kvenfólk sé ljótt kvenfólk eða sóðalegt. Það telst til að mynda ekki fallegt nú til dags að vera í hlírabol og stuttu pilsi með kafloðna fótleggi og handarkrika.

Ég nenni ekki að eltast við þessa tálsýn að fótleggirnir ættu að vera hárlausir og rennilegir á kvenfólki þegar ímynd karlmennskunnar eru loðnir leggir því ég bókstaflega hata það að raka á mér lappirnar. Tveimur dögum eftir að ég er búin að raka mig er ég orðin eins og kaktus í buxum. Annaðhvort framleiði ég allt of mikið af karlhormónum eða ég er bara tröllskessa í dulargerfi, því hárið á mér vex hraðar en á öllum öðrum konum. Einhvern tímann prófaði ég að nota vax á lappirnar. Sársaukinn var alls ekki þess virði, auk þess sem húðin þornaði upp. Prófaði ég mörg krem til að mýkja húðina upp aftur og um það bil sem mér tókst að fá rétt rakastig á leggina var kominn tími á vax aftur vegna þess að ég var orðin vel hærð. Og það er annað, ef maður ætlar að nota vax þá þarf maður að safna til þess að það virki. Og það er bara ógeð. Ég hef líka prófað að bleikja hárin, en það er bara bull. Maður er með alveg jafnmörg hár á fótunum, þau eru bara skjannahvít.
Með handarkrikana og þegar maður rakar þar, þá vilja margir meina að það komi sterkari svitalykt. Af hverju raka karlmenn sig þá ekki undir höndunum til þess að svitalyktin fylli loftið og við konurnar fáum furðulegan fiðring fyrir neðan mitti því talið er að svitalykt karlmanna virki eins og ferómón á flugur? Prfh... Mér finnst svitalykt alveg jafnvond, alveg sama frá hverjum hún kemur.

En ef ég á að líta álitlega út í augum mannsins míns þá verð ég að halda þessum pyntingum áfram svo hann fái nú ekki minnimáttarkennd. Því ef ég myndi reyna yrði ég loðnari en hann á fótunum og undir höndunum og það eru farin að vaxa hár á bringunni á mér. Og mér hefur verið tilkynnt að ég sé að fá skegg af litlum aðdáanda mínum. Og ekki vil ég að hann verði talinn hommi greyið, nógu er hann kvenlegur fyrir; horfir á Queer eye for the straight guy og dissar förðunina hjá þulunum á Ríkissjónvarpinu og pælir í fötunum sem fólk er í.

Þannig að ég mun halda áfram að plokka og raka þar til ég dey, því það er víst hlutskipti kvenna.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Ég hefði nú alveg getað sagt sjálfri mér að meðganga sé ekki það auðveldasta sem maður tekur sér fyrir hendur þar sem þetta er ekki mín fyrsta...eða önnur...eða...
En ég er nú aldeilis ekki manneskja sem áttar sig snemma á hlutunum. Það hefur ekki nokkurn tíma verið mín sterkasta hlið...

Fylgikvillar geta verið margir þegar maður leggur slíkt álag á jafn fagran kropp sem minn eigin. Og sumir fylgikvillarnir eru hvimleiðari en aðrir. Til að mynda finnst mér ógeðslegra en amma Andskotans á fyllerí að þurfa að æla eða verða vitni að aðrir æli eða lyktin af ælu (hvort sem er af minni eigin eða annarra) eða hljóðið þegar einhver ælir. Ég hef svosum verið blessunarlega laus við að kasta upp, 7-9-13, á þessari óléttu. En það hefur nokkrum sinnum verið óbærilega nálægt því að ég láti það bara flakka. En ég hef nú ekki gengið svo langt að stofna til það innilegrar vináttu við skálina að faðma hana að mér og horfa djúpt ofan í hana. Það myndi bara ögra öfugsnúna og undna maga mínum meira. Frekar stend ég og kúgast og tárast meðan ég berst við að halda öllu niðri. Þetta er nú að lagast en ég er verst á kvöldin og ég held að Jónsi sé farinn að taka þessu persónulega því hann má ekki anda í áttina að mér eða prumpa. Þetta er farið að ganga svo langt að ég finn lyktina um það bil 5 mínútum áður en hann lætur einn flakka. Og hann þarf ekki einu sinni að vera í sama herbergi og ég til að ég fari að framkvæma óhugnaleg kokhljóð og engjast um í baráttu minni við æluna. Ásaka hann síðan um mengun innanhúss og ríf alla glugga galopna og átta mig ekki fyrr en allt heimilisfólkið er komið í einn hnapp, skjálfandi, með sultardropana úr nefinu og kalbletti á tærnar.

Hér hafið þið einungis einn fylgikvillann vel útlistaðan frá mínu sjónarhorni en næst þegar ég hef ekkert að segja get ég sagt ykkur meir því af nógu er að taka.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Það er svo langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Það hefur svosem alveg verið nóg að gera síðan síðast. Mér þykir ofsalega vænt um hvað þið eruð tryggir lesendur, ég bjóst sko ekki við því að það sem ég hef fram að færa myndi vekja áhuga annara en fjölskyldunnar (og varla það). Né bjóst ég við að ykkur myndi finnast þetta röfl það merkilegt að fylgjast reglulega með því. Ég þakka kærlega fyrir það.

Ég ætti kannski ekki að byrja á því að tilkynna það að ég er ólétt en það er eiginlega það sem stendur mest upp úr. Ég lít út fyrir að vera kominn 6 mánuði á leið en í rauninni er ég rétt tæplega 4. Það er kannski bara eðlilegt miðað við að þetta er fjórða krílið sem ég geng með.
Nú eru margir eflaust orðlausir af hneykslan yfir að ég auglýsi það á Netinu að ég sé með barni. Þetta er víst það persónulegt mál að ég stíg langt yfir línu velsæmis með þessum skrifum mínum hér. Phrff. Það skyldaði enginn þann hluta mannkynsins að lesa mína síðu.

Ég er nýbyrjuð að vinna inn á leikskóla, gafst upp á Hótelinu og ruglinu þar. Ég er ekki búin að vinna í mánuð og er strax orðin lasin og hangi heima með beinverki og hor. Ekki glæsilegur árangur það. Ég er með bullandi samviskubit yfir þessu kvefi dauðans sem ég krækti mér í. Það er svo skondið að mér finnst alltaf að ég sé svo ómissandi í starfi að það muni allt hrynja ef ég mæti ekki á svæðið. Ekki það að ég sé að segja að ég sé svo geðveikt góður starfsmaður að áður hefur ekki sést annar eins, maður getur alltaf bætt sína frammistöðu, þetta er bara eitthvað í uppeldinu. Ef ég er ekki að mæta í það starf sem ég er ráðin í þá lendir það á þeirri manneskju sem mætti. En þannig er ég bara...