Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Ég hefði nú alveg getað sagt sjálfri mér að meðganga sé ekki það auðveldasta sem maður tekur sér fyrir hendur þar sem þetta er ekki mín fyrsta...eða önnur...eða...
En ég er nú aldeilis ekki manneskja sem áttar sig snemma á hlutunum. Það hefur ekki nokkurn tíma verið mín sterkasta hlið...

Fylgikvillar geta verið margir þegar maður leggur slíkt álag á jafn fagran kropp sem minn eigin. Og sumir fylgikvillarnir eru hvimleiðari en aðrir. Til að mynda finnst mér ógeðslegra en amma Andskotans á fyllerí að þurfa að æla eða verða vitni að aðrir æli eða lyktin af ælu (hvort sem er af minni eigin eða annarra) eða hljóðið þegar einhver ælir. Ég hef svosum verið blessunarlega laus við að kasta upp, 7-9-13, á þessari óléttu. En það hefur nokkrum sinnum verið óbærilega nálægt því að ég láti það bara flakka. En ég hef nú ekki gengið svo langt að stofna til það innilegrar vináttu við skálina að faðma hana að mér og horfa djúpt ofan í hana. Það myndi bara ögra öfugsnúna og undna maga mínum meira. Frekar stend ég og kúgast og tárast meðan ég berst við að halda öllu niðri. Þetta er nú að lagast en ég er verst á kvöldin og ég held að Jónsi sé farinn að taka þessu persónulega því hann má ekki anda í áttina að mér eða prumpa. Þetta er farið að ganga svo langt að ég finn lyktina um það bil 5 mínútum áður en hann lætur einn flakka. Og hann þarf ekki einu sinni að vera í sama herbergi og ég til að ég fari að framkvæma óhugnaleg kokhljóð og engjast um í baráttu minni við æluna. Ásaka hann síðan um mengun innanhúss og ríf alla glugga galopna og átta mig ekki fyrr en allt heimilisfólkið er komið í einn hnapp, skjálfandi, með sultardropana úr nefinu og kalbletti á tærnar.

Hér hafið þið einungis einn fylgikvillann vel útlistaðan frá mínu sjónarhorni en næst þegar ég hef ekkert að segja get ég sagt ykkur meir því af nógu er að taka.