Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Það er svo langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Það hefur svosem alveg verið nóg að gera síðan síðast. Mér þykir ofsalega vænt um hvað þið eruð tryggir lesendur, ég bjóst sko ekki við því að það sem ég hef fram að færa myndi vekja áhuga annara en fjölskyldunnar (og varla það). Né bjóst ég við að ykkur myndi finnast þetta röfl það merkilegt að fylgjast reglulega með því. Ég þakka kærlega fyrir það.

Ég ætti kannski ekki að byrja á því að tilkynna það að ég er ólétt en það er eiginlega það sem stendur mest upp úr. Ég lít út fyrir að vera kominn 6 mánuði á leið en í rauninni er ég rétt tæplega 4. Það er kannski bara eðlilegt miðað við að þetta er fjórða krílið sem ég geng með.
Nú eru margir eflaust orðlausir af hneykslan yfir að ég auglýsi það á Netinu að ég sé með barni. Þetta er víst það persónulegt mál að ég stíg langt yfir línu velsæmis með þessum skrifum mínum hér. Phrff. Það skyldaði enginn þann hluta mannkynsins að lesa mína síðu.

Ég er nýbyrjuð að vinna inn á leikskóla, gafst upp á Hótelinu og ruglinu þar. Ég er ekki búin að vinna í mánuð og er strax orðin lasin og hangi heima með beinverki og hor. Ekki glæsilegur árangur það. Ég er með bullandi samviskubit yfir þessu kvefi dauðans sem ég krækti mér í. Það er svo skondið að mér finnst alltaf að ég sé svo ómissandi í starfi að það muni allt hrynja ef ég mæti ekki á svæðið. Ekki það að ég sé að segja að ég sé svo geðveikt góður starfsmaður að áður hefur ekki sést annar eins, maður getur alltaf bætt sína frammistöðu, þetta er bara eitthvað í uppeldinu. Ef ég er ekki að mæta í það starf sem ég er ráðin í þá lendir það á þeirri manneskju sem mætti. En þannig er ég bara...