Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, júlí 17, 2004

Það er svo langt síðan ég hef bloggað að ég bið ykkur að fá ekki sjokk.
 
Ég hef verið þæg og góð enda barnið ekkert farið af stað aftur. Tek bara mínar bricanyltöflur reglulega og geri sem minnst. Stóru stelpurnar mínar eru á leikjanámskeiði fyrir hádegi þannig að við erum tvær, ég og Sesselja, fram að hádegi. Þær eiga nú hrós skilið fyrir hvað þær eru góðar og duglegar að leika sér úti...þegar það er gott veður. Um daginn voru þær allar þrjár úti í garði að leika sér og mér til mikillar skemmtunar komu þær og kvörtuðu undan því að hafa engann til að leika sér við. Ég held að þær hafi verið að biðja mig um að koma að leika við sig en ég þoli ekki við í hitanum. Það eru allir að kvarta undan rigningunni en ég er loksins farin að þola við utandyra. Sit löngum hér fyrir utan á stuttermabolnum og virði fyrir mér þokuna.
Við skráðum þær stóru líka í frjálsar íþróttir og nú um helgina er mót uppi á Egilsstöðum og þær eru að keppa í fyrsta skiptið. Ég veit nú ekki hver okkar er spenntari fyrir þessu. En eitt er víst að Sesselja hefur engan áhuga á að hanga á íþróttavellinum og mega ekki hlaupa um á eftir krökkunum. Þær kepptu í dag, laugardag, í 60m spretthlaupi og boltakasti og mitt stolta móðurhjarta var að springa, gætu líka verið hormónarnir. En það lá við að ég færi að skæla þegar þær voru að hlaupa. Mér finnst það góð regla að verðlauna ekki fyrir efstu sætin þegar um er að ræða svona unga krakka en mér finnst samt að ég hafi fengið verðlaun í dag. Bara að taka þátt í þessu saman fyllti mig gleði og einhverri annarri tilfinningu sem ég kann ekki á. Þó að veðrið hafi ekki verið með besta móti leið mér afskaplega vel í dag og á leiðinni heim var ég sáttari en ég hef verið í marga mánuði.
Svo á ég alveg svakalega duglegan mann, var ég búin að segja ykkur hvað hann er duglegur? Hann er að vinna allan daginn og svo kemur hann heim á kvöldin og fer að vinna í herbergi stelpnanna. Að vísu er hann stopp akkúrat núna því þeir í Húsasmiðjunni klúðruðu pöntuninni okkar en það reddast. Ji, það mætti halda að ég væri hamingjusöm eða eitthvað af þessu röfli hérna.

mánudagur, júlí 05, 2004

Ég var skömmuð um daginn fyrir þessa bansettu neikvæðni og þær fréttir sem þessi blessaða kona færði mér hafði þau áhrif að ég drulluskammaðist mín. Ég hef enga ástæðu til að vera að þessu væli. Ég ætti miklu frekar að einblína á hvað ég hefði gott, því það er alveg heill hellingur sem ég á meira og betra af en margur annar. Hér með biðst ég afsökunar á þessari bölvuðu sjálfsvorkunn hjá mér og þakka fyrir umburðarlyndið hjá ykkur sem hafa verið að lesa og bíða eftir einhverju skemmtilegu.

"Við" erum byrjuð á herberginu hjá stelpunum og ég er svakalega feginn að loksins er eitthvað að gerast í þeim málunum. "Við" erum að vísu bara byrjuð á að rífa allt niður, sem er eiginlega heljarinnar verkefni. "Við" þurfum svo líklega að einangra allt herbergið því "við" komumst að því að það er bara tómahljóð bak við allann panelinn. En ég kallaði á rafvirkja í morgun til að aftengja herbergið svo "við" gætum haldið áfram að rífa innan úr herberginu. Nú er kallinn komin heim úr vinnunni þannig að ég get eiginlega ekki skrifað meir í bili því "við" þurfum að nýta tímann þangað til að stelpurnar koma heim. Og ekki læt ég kallinn eftirlitslausan við jafn viðamikið og vandasamt verkefni. "Við" erum nefnilega að taka herbergið í gegn því ég gafst upp á að gera ekki neitt og nú sit ég og skipa fyrir og hann framkvæmir. En semsagt þá erum "við" að fara að halda áfram.