Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, september 02, 2006

Ég fór í aðgerð og var svæfð. Þegar það gerist hjá alkóhólista getur farið af stað fíkn og þar sem ég er nú óvirkur fíkill ákvað ég ekkert að vera að ögra því ferli og fór inn á Vog. Eða sko, ég fór en sponsinn minn ákvað að ég færi. Það er alveg merkilegt hvað ég get tekið edrúmennskuna mína sem sjálfsögðum hlut. Í sirka tvö ár, kannski skemur, hef ég bara verið á fundum og það meira að segja óreglulega á fundum. Og svo ekkert meir. Bara haldið að mér væri næstum því alveg batnað.
Fyrir ykkur sem ekki eru að skilja alkóhólisma get ég reynt að útskýra það eins og sykursýki. Ef þú ert sykursjúkur þarftu að sprauta þig með insúlíni (fundir) reglulega en það þarf líka að mæla sykurinn í blóðinu reglulega sem og fylgjast með mataræðinu og hreyfa sig. Það gengur ekki fyrir sykursjúkann mann að éta það sem hann langar í alltaf og nota svo sprauturnar sem "fix" ef hann ætlar ekki að versna af sykursýkinni eða standa í stað. En í raun er sykursýki miklu auðveldari sjúkdómur en alkóhólismi því alkóhólisminn er þrískiptur og krónískur.
Hann er andlegur, líkamlegur og félagslegur og maður er alltaf með hann. Þannig að til að ná bata þarf ég að huga að mér andlega, líkamlega og félagslega. Félagslega er ég í mjög góðum málum, þið hin sem eruð ekki alkar takið vinnuna ykkar, heimilum ykkar, fjölskyldu ykkar og vinum sem sjálfsögðum hlut. Enda er ekkert mál að halda þessum hlutum í lagi ef þú ert ekki alki. En ef þú ert alki eins og ég þá er það heljarinnar átak og sigur í rauninni að eignast heimili, fjölskyldu og vini og halda vinnu. Og það tekst ekki hjá okkur ölkunum ef við erum í neyslu (hvort sem það er áfengi eða eitthvað annað). Allavega tókst mér aldrei að halda þessum hlutum í lagi þegar ég var í neyslu, hvað þá öllum í einu. Líkamlega er ég ekkert í slæmum málum heldur því það tekur heilann tvö ár að hreinsast eftir neyslu. Þegar ég segi hreinsast meina ég að boðefnabúskapur heilans er kominn í það lag sem hann á að vera í. Ef þú ert með þunglyndi ennþá eftir tveggja ára edrúmennsku er það vegna þess að þú ert með það gen í þér fyrir neyslu. Ef þú ert með athyglisbrest (ekki ADHD samt) og átt erfitt með að einbeita þér áttir þú það til líka áður en þú byrjaðir í neyslu og svo framvegis og svo framvegis. Þannig að heilinn á mér á að vera kominn í lag þó ég sé með þunglyndi, ég væri með það hvort sem ég væri alki eður ei. Vefjagigtin mín er þó að hluta til neyslunni að kenna. Hún er afleiðing af áralangri óreglu og lélegu mataræði. Vefjagigtin var samt í genunum á mér þannig að ég hefði hvort eð er fengið hana en ég hefði fengið hana seinna. Andlega er ég í tómu tjóni. Þessi sjúkdómur er nefnilega lævís og óútreiknanlegur og byrjar alltaf að selja okkur lygar sem við alkar gleypum hráar. "Ég er nú búin að vera edrú svo lengi...ég hlýt að geta fengið mér einn öllara" er ein algengasta lyginn en áður en að henni kemur eru fullt af litlum lygum búnar að hreiðra um sig í kollinum á manni. Og eins og ég sagði áður, ég hef bara verið að fara á fundi, sem þýðir að það er troðfullt af litlum lygum sem ég þarf að fara að henda út. Ég þarf að fara að gera þessa litlu hluti sem halda mér edrú. Það er flókið að vera alki en lausnin er kannski ekkert svo flókin því hún er í AA-bókinni. Og ef maður les hana og fer eftir því sem stendur þar, svart á hvítu, þá hefst bataferlið.

1. Við viðurkennum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.
2. Við fórum að trúa, að æðri máttur gæti gert okkur heilbrigð að nýju.
3. Við tókum þá ákvörðun að leita Guðs og láta vilja okkar og líf lúta handleiðslu hans, samkvæmt skilningi okkar á honum.
4. Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.
5. Við játuðum afdráttarlaust fyrir Guði, sjálfum okkur og trúnaðarmanni yfirsjónir okkar.
6. Við vorum þess albúin að láta Guð lækna allar okkar skapgerðarveilur.
7. Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.
8. Við skráðum misgjörðir okkar gegn náunganum og vorum fús til að bæta fyrir þær.
9. Við bættum brot okkar milliliðalaust, svo framarlega sem það særði engan.
10. Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar, viðurkenndum yfirsjónir okkar undanbragðalaust.
11. Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu, að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um skilning á því sem okkur var fyrir bestu og mátt til að framkvæma það.
12. Við fundum, að sá árangur, sem náðist með hjálp reynslusporanna, vat andleg vakning og þess vegna reyndum við að flytja öðrum alkóhólistum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi.

Þetta er það sem ég er að vinna að núna og ég trúi því að þessi vetur verði ekkert mál.