Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, maí 11, 2006

Ég er búin að uppgötva nýjan hæfileika hjá mér.
Það var auðvitað vitað mál að ég er alveg gasalega hæfileikarík að ónefndri fegurðinni (sem ég þarf ekkert að hafa fyrir) en að vera að uppgötva nýja hæfileika á miðjum aldri er yndisleg guðsgjöf. Þessi nýi hæfileiki minn liggur í að eyða peningum.
Ég hef nýtt mér þennan hæfileika til fulls á síðustu dögum með því að versla mér innréttingar og fataskápa, baðkar, eldavél og háf, parket, parketlista og undirlag, hurðar, gerefti, þröskulda, hurðahúna, borðplötur, sólbekki og loftlista. Á að vísu eftir að ganga frá greiðslu á þessu sem talið er upp eftir parketið og einnig er eftir að leita tilboða í loftljós, málningu og gólfkork á vinnusvæðið í eldhúsinu. En miðað við minn einstaka smekk og hagsýni sé ég fram á að hafa efni á þessu öllu...með smá hjálp frá Glitni.
Vinnukarlar = Flotarar og sparslarar hafa lokið sínu hlutverki og komið er að því að ég flytji inn mitt eigið vinnuafl til að ljúka við uppsetningu á innréttingum, tengingu í blöndunartæki, gólfefnaásetningu og fleira dútl. En áður en að því getur orðið þarf allt tiltekið efnið að vera komið á staðinn auk þess að klára málningarverkið sjálf með hjálp góðra vina.
Parketið og allt sem því fylgir er komið.
Baðkarið og blöndunartækin í það er komið.
Eldavélaháfurinn er kominn....eldavélin fór á flakk.
Innréttingarnar á baðið og eldhúsið er á leiðinni, fyrir utan framhliðar á meirihlutann af þeim og nokkra aukahluti eins og ruslafötu og slíkt prjál.
Fataskápar eru á leiðinni, fyrir utan meira en helminginn af þeim og framhliðar.
Þannig að þetta allt er á "góðri" leið og stressið er í hámarki því þrátt fyrir allt er ekki mánuður í það að við þurfum að skila af okkur Hólnum. En ef ykkur dettur eitthvað í hug sem ég er að gleyma að kaupa eða eyða í endilega látið skilaboð í kommentakerfið hjá mér.