Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, september 22, 2005

Það er einhver æðislegur leikur í gangi í blogghópnum mínum þar sem maður á að skrifa eins og eina færslu um mann sjálfan og ég var "klukkuð" af afa. Og auðvitað tekur maður þátt í skemmtilegum leik þannig að hefst nú lesturinn.
Ég er elsta dóttir mömmu minnar en yngsta dóttir ömmu minnar. Þær karpa reglulega um hvor eigi heiðurinn af mér en ég vil nú meina að einhver sæðisgjöf að vestan hafi eitthvað með málið að gera. Þannig að ég er hálfur sjómaður að austan og hálfur kúabóndi að vestan og ég ét bæði kjet og fisk ef haft er með smjer. Ég á heilan helling af systkinum en ekkert af þeim heilt, mömmu megin eru þau þrjú og pabba megin eru þau þrjú. Það sem ég hafðist fyrir í æsku var að lesa ævintýri og skáldsögur og lifa mig inn í heim bókmennta miklu meira en hollt var. Það sem ég hafðist fyrir á unglingsárunum tengdist öllu sem var bannað enda ekkert fútt í því að gera það sem allir hinir voru að gera. Nú er ég reglusöm húsmóðir í vinnu hálfan daginn með fjögur börn sem gera lífið þess virði að lifa því og mann sem styður mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og er yndislegur í alla staði. Ég hef lært af mistökum mínum í gegn um tíðina og náði loks að forgangsraða öllu rétt og nú er það fjölskyldan sem skiptir mig mestu máli.
Ég veit eiginlega ekki hvað meira verður um mig sagt þannig að ég "klukka" á Beddu næst því hún er svo frábær og skemmtileg.