Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa ekki skrifað seinni hlutann af ferðasögunni fyrr en núna. Ástæðan hefur verið sú að ég hef ekkert komist í tölvuna, því að tölvan var notuð í þeim tilgangi sem hún var keypt, sem þýðir að Jónsi var að læra.
Ferðasagan, seinni hluti.
Þegar ég var búin að borða kvöldmatinn heima hjá tengdapabba var hringt í mig og ég beðin um að drífa mig af stað. Ég þurfti að hitta fullt af fólki og gera fullt af hlutum, þar á meðal skutla Kidda heim eftir vinnuna. Það var svosem ágætt því þar hitti ég Kollu sem átti strák 27. ágúst og við gátum því farið að metast. Þegar sá slagur var búinn, sem við báðar unnum, þurfti Kiddi náttúrulega að næra sig og var farið á staðinn í Skeifunni sem sérhæfir sig í mexíkóskum mat. Ég hafði ekki áhuga á að borða þar. Seinna um kvöldið varð ég samt svöng og ákváðum við Elsa að panta pizzu. Var hringt í Domino's og pantað og strákurinn sem tók niður pöntunina var ekki að auðvelda mér þetta. Ég hélt hann væri að grínast þegar hann bauð mér "kjúklingakombó", fannst það svaka fyndið orð og hló eins og geðsjúklingur, en þegar ég sá framan í Elsu og heyrði þögnina hinum megin á línunni áttaði ég mig á því að þetta var ekki grín. Spurði ég þá hvað kjúklingakombó væri. Mér virðist sem það sé kjúklingur sem drepinn er, rétt skriðinn úr egginu, því þetta eru pínulitlir leggir og vængir. Ekki mikil fyndni í því.
Daginn eftir vaknaði ég galvösk og fór að taka mig til, pakka niður, yfirfara íbúðina nokkrum sinnum til að ganga úr skugga um að ég gleymdi örugglega ekki neinu, hringdi síðan í Salla klukkan hálf tíu, vegna þess að ég átti að vera mætt klukkan tíu út á flugvöll. Náði ég þá birni í bóli og rak á eftir honum. Þetta hefði getað gengið ef hann hefði ratað í Hafnarfirði og öll ljós hefðu ekki verið rauð á leiðinni. Meira að segja gönguljósin voru rauð. Mættum við út á flugvöll 20 mínútur yfir tíu, þegar 10 mínútur voru í brottför. Ég stóð við afgreiðsluborðið við a.m.k. fimm mínútur áður en ég fékk aðstoð. Kom þá stelpa og spurði mig hvort ég væri Hulda. Ég sagði svo vera og þá fór hún að skamma mig fyrir að mæta ekki á réttum tíma, ég ætti nefnilega að mæta hálftíma fyrir brottför, vélin væri nú lokuð og ég væri því búin að missa af henni. Þar sem ég hélt á barninu, með töskuna á milli fótanna og skiptitöskuna yfir öxlina hváði ég bara og spurði hvort ekki væri möguleiki að skella mér með þessu flugi. Hún sagði nei, ég þyrfti að borga breytingargjald og fara með næsta flugi. Svo benti hún mér að tala við aðra stelpu, hinum megin í salnum. Sú stelpa tók eftir því hve illa mér leið og hversu nálægt ég var því að fara að grenja og ákvað að breyta fluginu mínu án þess að ég þyrfti að borga breytingargjaldið. Sagði hún mér síðan að mætingin væri í það flug klukkan tólf því flogið væri klukkan hálf eitt. Þar sem ég stóð með barnið á handleggnum og allan farangur skipulega í kringum mig sagði ég henni það að þar sem ég væri bíllaus færi ég ekki neitt. Ég myndi bara setjast í teríuna og fá mér kaffi. Hún brosti og sagði já.
Sem betur fer var Bára frænka stödd á flugvellinum og gat haldið mér félagsskap í smástund og hitt litla-karl því hún var ekki búin að sjá hann. Gátum við spjallað um heima og geima, auk þess að hneykslast yfir vinnubrögðunum á þessum bæ. Við vorum búnar að sitja yfir kaffibollanum í hátt í klukkutíma þegar það dundi í hátalarakerfinu að farþegar til Egilsstaða væru vinsamlegast beðnir um að ganga um borð. Við litum hvor á aðra með undrun og ég stökk upp, hljóp að afgreiðsluborðinu og spurði hvort þetta væri vélin mín. "Þetta er upprunalega vélin sem þú áttir að fara með en misstir af. Við héldum að þú værir farin þannig að þú ert búin að missa af henni aftur." Ég var svo hissa og hneyksluð að það tók mig nokkrar mínútur að fatta að segja þeim að ég hefði sagst ekki ætla að fara neitt. Þá var bara brosað og sagt, "Ja, þú mætir bara aftur klukkan tólf." Ég endurtók þá að ég væri bíllaus með ungabarn og að ég kæmist ekki neitt. Klukkan tólf var Bára frænka farin, ég búin að skipta á stráknum allavega tvisvar og búin að gefa honum að drekka. Var þá tilkynnt í hátalarakerfinu að seinkun væri á fluginu til Egilsstaða og að seinkunin væri klukkutími. Sem þýðir að á miðvikudaginn fyrir viku síðan eyddi ég og nýfæddi sonur minn þremur klukkutímum á flugvellinum í Reykjavík, bara af því að fólkið í Flugfélaginu nennti ekki að vinna vinnuna sína og veita mér þjónustu.
Það sem mér finnst allsvakalegt með þessa sögu, búin að róa mig niður og geta séð hana nokkurn veginn með réttum augum, er að ég er skráð með ungabarn í flugið en þau ákveða samt að loka vélinni, meira en tíu mínútum fyrir brottför, án þess að gera nokkra tilraun til að ná í mig (þau voru með símanúmerið mitt) og athuga hvort ég væri á leiðinni. Skítt með það ef ég hefði bara verið ein á ferð, þá má alveg fokka planinu upp. En þegar ungabarn er með í spilinu eru þetta ótrúleg vinnubrögð, sérstaklega vegna þess að maður veit af mörgum sem hafa mætt jafnvel fimm mínútum fyrir brottför og fengið að fara með. Meira að segja er beðið eftir sumum og hinir látnir bíða. En ég komst heim á endanum.
Ferðasagan, seinni hluti.
Þegar ég var búin að borða kvöldmatinn heima hjá tengdapabba var hringt í mig og ég beðin um að drífa mig af stað. Ég þurfti að hitta fullt af fólki og gera fullt af hlutum, þar á meðal skutla Kidda heim eftir vinnuna. Það var svosem ágætt því þar hitti ég Kollu sem átti strák 27. ágúst og við gátum því farið að metast. Þegar sá slagur var búinn, sem við báðar unnum, þurfti Kiddi náttúrulega að næra sig og var farið á staðinn í Skeifunni sem sérhæfir sig í mexíkóskum mat. Ég hafði ekki áhuga á að borða þar. Seinna um kvöldið varð ég samt svöng og ákváðum við Elsa að panta pizzu. Var hringt í Domino's og pantað og strákurinn sem tók niður pöntunina var ekki að auðvelda mér þetta. Ég hélt hann væri að grínast þegar hann bauð mér "kjúklingakombó", fannst það svaka fyndið orð og hló eins og geðsjúklingur, en þegar ég sá framan í Elsu og heyrði þögnina hinum megin á línunni áttaði ég mig á því að þetta var ekki grín. Spurði ég þá hvað kjúklingakombó væri. Mér virðist sem það sé kjúklingur sem drepinn er, rétt skriðinn úr egginu, því þetta eru pínulitlir leggir og vængir. Ekki mikil fyndni í því.
Daginn eftir vaknaði ég galvösk og fór að taka mig til, pakka niður, yfirfara íbúðina nokkrum sinnum til að ganga úr skugga um að ég gleymdi örugglega ekki neinu, hringdi síðan í Salla klukkan hálf tíu, vegna þess að ég átti að vera mætt klukkan tíu út á flugvöll. Náði ég þá birni í bóli og rak á eftir honum. Þetta hefði getað gengið ef hann hefði ratað í Hafnarfirði og öll ljós hefðu ekki verið rauð á leiðinni. Meira að segja gönguljósin voru rauð. Mættum við út á flugvöll 20 mínútur yfir tíu, þegar 10 mínútur voru í brottför. Ég stóð við afgreiðsluborðið við a.m.k. fimm mínútur áður en ég fékk aðstoð. Kom þá stelpa og spurði mig hvort ég væri Hulda. Ég sagði svo vera og þá fór hún að skamma mig fyrir að mæta ekki á réttum tíma, ég ætti nefnilega að mæta hálftíma fyrir brottför, vélin væri nú lokuð og ég væri því búin að missa af henni. Þar sem ég hélt á barninu, með töskuna á milli fótanna og skiptitöskuna yfir öxlina hváði ég bara og spurði hvort ekki væri möguleiki að skella mér með þessu flugi. Hún sagði nei, ég þyrfti að borga breytingargjald og fara með næsta flugi. Svo benti hún mér að tala við aðra stelpu, hinum megin í salnum. Sú stelpa tók eftir því hve illa mér leið og hversu nálægt ég var því að fara að grenja og ákvað að breyta fluginu mínu án þess að ég þyrfti að borga breytingargjaldið. Sagði hún mér síðan að mætingin væri í það flug klukkan tólf því flogið væri klukkan hálf eitt. Þar sem ég stóð með barnið á handleggnum og allan farangur skipulega í kringum mig sagði ég henni það að þar sem ég væri bíllaus færi ég ekki neitt. Ég myndi bara setjast í teríuna og fá mér kaffi. Hún brosti og sagði já.
Sem betur fer var Bára frænka stödd á flugvellinum og gat haldið mér félagsskap í smástund og hitt litla-karl því hún var ekki búin að sjá hann. Gátum við spjallað um heima og geima, auk þess að hneykslast yfir vinnubrögðunum á þessum bæ. Við vorum búnar að sitja yfir kaffibollanum í hátt í klukkutíma þegar það dundi í hátalarakerfinu að farþegar til Egilsstaða væru vinsamlegast beðnir um að ganga um borð. Við litum hvor á aðra með undrun og ég stökk upp, hljóp að afgreiðsluborðinu og spurði hvort þetta væri vélin mín. "Þetta er upprunalega vélin sem þú áttir að fara með en misstir af. Við héldum að þú værir farin þannig að þú ert búin að missa af henni aftur." Ég var svo hissa og hneyksluð að það tók mig nokkrar mínútur að fatta að segja þeim að ég hefði sagst ekki ætla að fara neitt. Þá var bara brosað og sagt, "Ja, þú mætir bara aftur klukkan tólf." Ég endurtók þá að ég væri bíllaus með ungabarn og að ég kæmist ekki neitt. Klukkan tólf var Bára frænka farin, ég búin að skipta á stráknum allavega tvisvar og búin að gefa honum að drekka. Var þá tilkynnt í hátalarakerfinu að seinkun væri á fluginu til Egilsstaða og að seinkunin væri klukkutími. Sem þýðir að á miðvikudaginn fyrir viku síðan eyddi ég og nýfæddi sonur minn þremur klukkutímum á flugvellinum í Reykjavík, bara af því að fólkið í Flugfélaginu nennti ekki að vinna vinnuna sína og veita mér þjónustu.
Það sem mér finnst allsvakalegt með þessa sögu, búin að róa mig niður og geta séð hana nokkurn veginn með réttum augum, er að ég er skráð með ungabarn í flugið en þau ákveða samt að loka vélinni, meira en tíu mínútum fyrir brottför, án þess að gera nokkra tilraun til að ná í mig (þau voru með símanúmerið mitt) og athuga hvort ég væri á leiðinni. Skítt með það ef ég hefði bara verið ein á ferð, þá má alveg fokka planinu upp. En þegar ungabarn er með í spilinu eru þetta ótrúleg vinnubrögð, sérstaklega vegna þess að maður veit af mörgum sem hafa mætt jafnvel fimm mínútum fyrir brottför og fengið að fara með. Meira að segja er beðið eftir sumum og hinir látnir bíða. En ég komst heim á endanum.
<< Home