Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Það er tæp vika í þann fyrsta í aðventu. Að því tilefni hef ég skipulagt þrifin, þeim sem þekkja mig ekki til mikillar furðu. Mér til mikillar gleði hef ég klárað skipulagið og get því farið að undirbúa mig fyrir framkvæmdina. Ástæðan fyrir því að ég birti það hér er tvenns konar, í fyrsta lagi þá hefur Jónsi tíma til að undirbúa sig alla vikuna og getur því skipulagt nám og annað svo hann geti fylgt þessu eftir og í annan stað get ég ekki bakkað með þetta eftir að þetta verður opinbert og þá er komin pressan sem ég þarf fyrst mamma er ekki á leiðinni. Mun hið guðdómlega skipulag hljóma svo: á laugardeginum 27.nóv munu allir gluggar, öll gólf, allar hillur og allt veggdót vera þrifið, pússað og bónað. Einnig verður öllum jólaljósum, s.s. aðventuljósum, jólastjörnum og ?seríum komið fyrir í gluggum heimilisins. Að því loknu verður gerð innrás í Hátúnið og gluggar teknir þar og seríur settar upp. Munum við hjónakornin svo skella okkur á jólahlaðborð um kvöldið og eiga rómantíska byrjun á aðventunni, bara tvö ein. Á sunnudeginum 28.nóv munum við stelpurnar byrja að baka og Jónsi sér um að yfirfara útiljósin og þegar dimma tekur munum við ganga um húsið og stinga öllu í samband og setjast svo við að gera aðventukransinn saman og kveikja á fyrsta kertinu. Og um kvöldið verður öllum smalað í bað og allir fara að sofa á skikkanlegum tíma, hreinir og fínir í hreinum rúmum.
Ohhh, ég get varla beðið... Bara vonandi að snjórinn haldist.