Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Þá er maður komin heim aftur eftir að hafa skellt sér í smá menningarferð í höfuðborgina. Hér á eftir hafið þið ferðasögu húsmóður úti á landi. Áður en lestur hefst vil ég taka fram að ég var einu sinni borgardama með öllum þeim lystisemdum sem því fylgja. Þannig að ég ætti að kunna á klæki borgarbúa en aldeilis sem ég hefi gleymt þeim bellibrögðum...
Ég byrjaði á því stuttu eftir að ég lenti að fara í extrím meikóver til Kidda þar sem ég var klippt, plokkuð og lituð. Fyndið hvað mér líður alltaf illa á hárgreiðslustofum, mér finnst ég eitthvað svo litlaus miðað við þessar skvísur sem sitja út um alla stofu með álpappírinn í hárinu og í flottu tískufötunum. Ég gleymi því alltaf að það er "dresskód" inn á þessa fínustu staði bæjarins. En ég var ekki í flíspeysunni og ullarsokkunum, ég var í fína "dreifbýlistúttuátfittinu" mínu, gallabuxum og prjónapeysu, kuldaskónum og Didriksonsjakkanum mínum. Þannig sparaði ég Kidda helling af skömm með því að geyma flíspeysuna heima. En honum tókst nú að gera mig boðlega til höfuðsins allavega og gat látið sjá sig með mér úti meðal almennings.
Svo stímdum við á Kringluna, því maður telst ekki til landsbyggðarpakksins nema fara fyrst þangað þegar maður kemur í borgina. Þar var mér bannað að líta í áttina að barnafataverslunum enda tilgangurinn að kaupa jólafatnaðinn á húsmóðurina áður en lengra væri haldið. Við röltum um allar aðalpæjuverslanirnar sem mér virðist ekki selja fatnað undir 10.000 krónum en þar sem ég er með eindæmum hagsýn húsmóðir var ekkert keypt í þeim verslunum. Kiddi datt úr stuði. Við enduðum í Verómóda þar sem við skófluðum í körfuna heilum helling af fötum fyrir mig að máta. Þar fann ég þessa fínu dragt á tæpar 13.000 krónur sem mér finnst afrek í sjálfu sér miðað við að ég fór með tískulögguna mína með mér. Þegar maður er með hús fullt af börnum getur maður ekkert verið að eyða fúlgum í mann sjálfan. Eins og Kiddi réttilega benti mér á í einni pæjuversluninni, þar sem ég fékk andnauð vegna verðs á efnislitlum bol, að ég bý hinum megin á landinu og er orðin algjör húsmóðir. Maður nær nú þeim stimpli ekki nema fá alvarlega andnauð yfir ósiðsamlega efnislitlum bol sem kostar yfir 8.000 krónurnar.
En daginn eftir missti ég mig gjörsamlega í barnadeildinni í Hagkaup og vildi ég að ég hefði haft eins mikla sjálfsstjórn í þeirri verslunarferð... Áður en ég vissi af var karfan orðin full af fötum og allt í þríriti. Þrír bleikir Barbígallar, þrír rauðir kjólar, þrjár sokkabuxur, þrjú pör af spariskóm, þrír langerma bolir... Það er allt annað að versla á börnin en að versla á mann sjálfan. Ég hefði getað keypt miklu meira, en tengdó náði að yfirbuga mig. Og með einbeitingu og hörku tókst henni að beina mér að upplýsingaborðinu því ég lét senda mér þetta... (í póstkröfu) því ekki nennti ég að burðast með þetta allt í flugvélina. En þar sem ég var farin að skjálfa af næringarskorti þarna var ég ekkert að bíða eftir að vita hvað herlegheitin kostuðu heldur fékk ég mér pulsu og kók og yfirgaf svæðið sötrandi á kókglasinu. Þarna átti ég að fara heim til tengdapabba og slaka á og leggja mig bara í staðinn fyrir það sem ég gerði næst...
Ég ætlaði í dýpstu einlægni bara að fara í Rúmfó og kaupa mér efni í gardínur en villtist aðeins á leiðinni og rankaði við mér inni í Smáralind, nánar tiltekið Toppsjopp, búin að máta nokkrar gallabuxur og boli og var að biðja afgreiðslustelpuna um að senda mér þetta í póstkröfu. Sem hún og gerði líklegast þó ég sé ekki búin að fá þetta í hausinn ennþá. Eftir það fór ég á kaffihús og mér leið eins og ég ímynda mér að raðmorðingjum líður eftir að hafa stútað sínu öðru fórnarlambi. Sallaróleg pantaði ég mér kaffi og tók nokkur blöð til aflestrar, sötraði kaffið í rólegheitum meðan ég blaðaði í tímaritunum og skipulagði í huganum hvert förinni væri heitið næst. Sem betur fer rann af mér æðið þarna í rólegheitunum og ég áttaði mig á því hvað klukkan var orðin, fór og keypti í matinn í Nóatúni og rauk til tengdapabba til að elda lasagna.

En það dró heldur betur til tíðinda seinasta kvöldið og daginn minn í höfuðborginni, til að mynda ætlaði það ekki að ganga snurðulaust fyrir mig að komast heim. En meira um það á morgun því ég nenni ekki að skrifa meir...