Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Það er aldeilis að börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Ég á það til að stökkva upp og ákveða að við erum að fara út NÚNA og standa síðan tilbúin við útidyrnar og pirrast út í fjölskyldumeðlimi sem eru að klæða sig, sem að mínu mati tekur stundum ALLTOF langan tíma. Stundum gengur það svo langt að ég stend á garginu og skipa fyrir eins og herforingi: "í skóna!", "úlpan er á snaganum!" og "drífa sig, drífa sig!". Ég fengi aldrei verðlaun fyrir þolinmæði...né sanngirni. Mér finnst til dæmis börnin eigi ekki að borða nammi nema á laugardögum en þegar mig langar í nammi stelst ég inn í búr til að japla á einhverju súkkulaðistykki. Og þegar ég vil að hlutirnir séu gerðir þá á að gera hlutina strax. En ég hef fengið að finna hvernig það er að búa með svona manneskju núna seinustu tvo morgna. Fengið að bragða á eigin meðulum eins og sagt er...Og þau eru ekki góð.
Í gærmorgun stóð sú stutta fullklædd við útidyrnar, rétt upp úr átta, og rak á eftir mér. Þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki morgunmanneskja, svo ég fegri sjálfa mig aðeins. Það þýðir ekkert að tala við mig fyrr en ég hef drukkið kaffi, og það helling af því. En hún var aldeilis þrjósk (hvaðan ætli hún hafi það?) því ég var spurð á mínútufresti:"ætlaru að klæða þig?", "af hverju ætlaru að fá þér kaffi?, "ertu búin með kaffið?" (ég var búin að fá einn sopa). Svo byrjaði hún að skipa mér fyrir: "farðu að klæða þig.", flýttu þér með kaffið", "komdu nú, ég þarf að fara á leikskólann". En mér var hætt að standa á sama þegar hún byrjaði að æsa sig og garga á mig: "ég er að verða sein á leikskólann!", "drífðu þig!" og "mamma, viltu koma núna!".
Í morgun náði ég að stoppa hana áður en hún klæddi sig í útifötin. Svo hélt ég henni á spjalli til að afvegaleiða hana rétt á meðan ég drakk helminginn af kaffinu í könnunni. Ég mætti almennilega vöknuð á leikskólann með barnið í dag...rétt fyrir morgunmatinn.