Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, nóvember 29, 2003

Skipulagða skipulagið mitt varðandi þrifin hefur ekki staðist sem skildi.

Ég byrjaði seinna en ég ætlaði mér og hef ekki hellt mér í þetta af öllum krafti. Þó ég sé afar stolt af barnaherberginu sem er þessa stundina með afbrigðum hreint tel ég það hroðalega slakan árangur að það sé eina herbergið sem ég hef klárað. Ástandið í hinum herbergjum heimilisins er eins og eftir hörð stríðsátök. Er ég farin að skammast mín fyrir vanhæfni mína til heimilishalds. Ég sé hvar vandinn liggur og ég nálgast þennan vanda minn eins og sannur alki, viðurkenningin er fyrsta skrefið. Ég sé að þetta gengur engan veginn og ef ég geri ekkert í málinu mun fjölskyldan borða jólamáltíðina í forstofunni, það er eina herbergið sem rúmar okkur öll fyrir drasli. Mér hefur verið tilkynnt að þetta sé mjög víða þekkt ástand og kallist það óreiða vegna þrifa. En eins og sannur alki er ég með þessu að réttlæta ástandið fyrir sjálfri mér og öðrum til að flýja aðgerðir til úrbóta. De går inte... ég verð að mæta vandanum mun beinskeyttari en það. Þetta minnir mig þó áþreifanlega á góðu gömlu tímana þegar ég var saklaust barn og móðir mín kær lagði blíðlega til að ég þrifi í vistarveru minni. Að sjálfsögðu hlýddi ég henni eins og alltaf og fór til míns herbergis en þegar ég sá hvað kom undan kraðakinu rifjuðust upp minningar um það leikfang sem við átti. Þó var það afar sjaldgæft að dyngja mín væri óhrein eða óskipulögð að neinum hætti. Eníveis... þetta er að koma fyrir mig núna. Það eru hinir ótrúlegustu hlutir sem ég er að rekast á hérna í draslinu. Hverjum hefði dottið í hug að ég ætti próflesandi karl innan um allt draslið eða ólmandi börn?