Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

mánudagur, nóvember 03, 2003

Oh, Smíðastrumpur.

Frændi minn, sem er smiður, er fyrirtaks maður í alla staði. Hann er bráðmyndarlegur, handlaginn og með frábært skopskyn. Þegar ég var lítil vildi ég eignast mann eins og Pétur frænda. Allt sem hann tekur sér fyrir hendur er gert mjög vel, því er engin furða að maðurinn skuli alltaf hafa nóg að gera.

Og þar sem maður treystir ekki hverjum sem er fyrir hlutunum hef ég beðið hann, nokkrum sinnum, um að laga ýmislegt í húsinu okkar. Það er ýmislegt sem þarf að laga hérna en mér finnst liggja mest á stiganum.....í dag. Þið megið ekki misskilja mig og halda að ég sé að biðja hann um þetta án þess að vilja borga. Því ég hef boðið honum að borga sama verð og allir hinir. En hann ber alltaf fyrir sig sama svarinu: "það er svo mikið að gera hjá mér að ég kemst ekki í það núna".

Ég er að spá í að fara í fýlu við hann og fá mér annan uppáhaldsfrænda. Þó ég viti að það verði erfitt þar sem ekkert annað frambæranlegt skyldmenni býr hér í bæ. Kannski verður hann svo hræddur um að ég sé hætt að halda upp á hann að hann kemur eitt kvöldið með tommustokkinn og fer að mæla og banka í veggina og áður en ég veit er búið að laga allt sem mér finnst að ætti að laga.