Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Og svona fyrst ég sit hér og blaðra þá vil ég dásama þennan mann minn.

Hann hefur nú haft í nógu að snúast undanfarið, með mig veika og tvær litlar skvísur í fullu fjöri, þannig að ekki get ég annað en tjáð aðdáun mína á honum. Nú þegar ég er farin að hressast er ég að sjálfsögðu aðeins farin að líta yfir skemmdirnar sem hlutust á umhverfinu meðan ég var lasin. Hann hefur verið mjög góður í að hlýða mér og minni sérvisku meðan hann sá alfarið um heimilið alveg aleinn þessar síðastliðnu vikur. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um þvottinn. Hann barðist vel og hetjulega fyrir ári síðan að ég hleypti honum nálægt þvottinum og ég treysti honum fyrir að setja í vél núna. En ég hélt þeirri stöðu minni í því stríði að ég er ennþá sú eina sem fær að koma nálægt samanbroti þvottarins. Ég fer ekkert ofan af þeirri sannfæringu að karlmönnum er það ómögulega fært að brjóta saman einsog ég vil að það sé gert. Ég erfði þessa sérvisku af ömmu minni, sem stóð galvösk í eldhúsglugganum og gargaði á mann meðan maður hengdi út. Hann hefur því verið með afbrigðum duglegur að setja í vél þó ekki sé það brotið saman og bíður mín nú heljar haugur af hreinum þvotti til að brjóta saman og ganga frá. Og hef ég engan við að sakast nema sjálfa mig.

Það sem ég get mest jagast yfir er hvernig Hótelið er orðið eftir fjarveru mína enda er það alfarið á minni ábyrgð. Það mun taka mig svolítinn tíma til að koma því í viðunandi horf á nýjan leik. Tók það nú tímana tvenna þegar ég tók við því í byrjun hausts og ég sé að þetta verður ekki mikið minna verk. Það sem er aðeins öðruvísi núna er að Hótelið er fullt af fólki sem er að þvælast fyrir núna með sitt hafurtask. En eins og í öllu öðru er bara að bretta upp ermar og hefjast handa. Ég hef skipulagt að verkið hefjist með morgundeginum og ljúki eigi síðar en í enda næstu viku.

En ég er mjög ánægð með annan kall en smíðakallinn sem mér var sendur og eitthvað segir mér að sá maður fái einstaklega vegleg verðlaun í enda dags.