Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Nú þegar ég er komin heim tekur við blákaldur veruleikinn. Ég þarf að fara að taka til í kofanum til að koma öllu jóladótinu fyrir.

Ég er byrjuð að skipuleggja þrifin eins og mér er einni lagið. Og samkvæmt skipulaginu mun ég byrja eigi seinna en í dag á miðhæðinni og klára það verk með sóma fyrir kvöldmat, sem verður ljúffengur eins og vanalega er húsfreyjan tekur sig til. Með morgundeginum mun mér takast að klára svefnherbergin og efri hæðina og mun öll fjölskyldan sameinast um helgina við þrif á kjallaranum, samkvæmt skipulagi húsmóðurinnar. Ef öll verkin standast á tíma sé ég fyrir mér að allt verði tilbúið til gangsetningar klukkan átjánhundruð á sunnudags eftirmiðdegi. Húsið mun uppljómað verða og baðað í jólaljósum og hreingerningarlyktin mun berast um sveitirnar. Fólk mun koma hvaðanæva að til að dást að húsinu og standa í röðum með nefið út í loftið til að finna anganina af þrifum og bakstri. Og allir verða sammála um að hér fer húsmóðirin á kostum með myndarskap.

Eins og margoft áður hefur komið fram er það framkvæmdin sjálf sem er eitthvað að standa í mér. Þó reynslan sýni mér að besta aðferðin sé að standa upp og slökkva á tölvunni er samt eins og það sé erfiðara en það hljómar. En ég mun gera heiðarlega tilraun til að standast freistingar lyklaborðsins og tálsýnir skjásins um leið og ég hef lokið við að tjá mig um mína einstöku hæfileika til skipulags... sem er núna sumsagt.