Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Munið þið eftir kápunum sem voru í tísku fyrir svona eins og fimm árum síðan, þær voru svartar eða dökkgráar með einhvursskonar loðkraga í hálsmáli, ermum og faldi? Hagkaup tók upp á að selja eftirlíkingar en þær voru úr einhverju plastefni til að vera meira vatnsheldari en hinar upprunalegu kápur.

Allavega, ég keypti mér svoleiðist kápu fyrir nokkrum árum og fannst ég algjörlega vera hipp þegar ég var í henni og klæddist ég henni þess vegna nokkuð oft. Minnistæðasta atvikið í þessari geggjuðu flík er þegar ég og minn fyrrverandi vorum nýhætt saman og ég ætlaði mér svoleiðis á veiðar. Var bráðin hörundsdökkur Kani sem ég hafði kynnst í gegnum vinkonu mína og okkur var orðið vel til vina. Nema þetta kvöld átti svoleiðis að misnota þann dreng og hafði ég mig til sem mest ég mátti. Hef ég aldrei verið mikið fyrir að mála mig en þarna gerði ég undantekningu frá letinni. Skellti ég í andlitið allskonar drasli sem Kiddi bró var búinn að gefa mér í tonnatali, í árangurslausri tilraun sinni til að fá kveneðli mitt til að skína. Hvað þetta allt nú heitir er ég ekki ennþá með á hreinu en ég leit þó þokkalega vel út með þetta smink og fannst ég bara helvíti foxí svona stífmáluð og í kápunni góðu. Og yfirgaf ég heimilið með slatta af sjálfsöryggi og hélt til fundar við manninn. Það var fiðringur í mér og það hvarflaði ekki að mér í eina sekúndu að maðurinn gæti hreinlega staðist mig, þetta meigabeib sem mér fannst ég vera. Sá ég fyrir mér að hann myndi hreinlega gapa af aðdáun á mér þegar ég myndi ganga eggjandi til hans á kaffihúsinu.

Þegar á kaffihúsið kom reyndi ég að ganga eins eggjandi og ég mögulega þorði á almannafæri, lyngdi aftur augunum og brosti kynþokkafyllsta brosi sögunnar. Hann gapti á mig frá því að ég gekk inn og gat ekki slitið af mér augun í langan tíma eftir að ég settist. Ég pantaði mér kaffi og kveikti mér í sígó og ég reyndi að vera eins kvenleg og tælandi og ég gat. Þegar ég leit á manninn sem enn var orðlaus og starandi á mig (eins og hungraður úlfur á feitt lamb) fékk ég mjög góða og kitlandi tilfinningu og sannfærðist um að áætlunin væri á góðri leið. Nema kannski að ég yrði ekki "veiðimaðurinn" heldur kannski bara "bráðin", en var sátt á hvorn veginn sem það færi. Þegar ég fann að þögnin var að verða neyðarleg tók ég til bragðs að tala en þar sem ég fékk engin svör fór ég að finna fyrir taugaveiklun hjá mér. Eins og allir vita er ég mjög ræðin, svo vægt sé til orða tekið, þegar ég verð stressuð og talaði ég því aðeins of mikið um ekkert. Því létti mér óstjórnlega þegar hann tók um höndina á mér og sagði að ég væri sæt. Hann horfði í augun á mér og sagði að honum fyndist ég aldrei hafa litið svona vel út áður og strauk mér um vangann. Loksins þegar ég hafði öðlast mitt fyrra sjálfsöryggi kom setningin sem sló allt út: "who killed this ugly dog and stuffed it in a garbagebag?" og þar sem ég var ekki alveg að fatta um hvað hann var að tala, kom hann með aðra setningu sem bergmálar oft í hausnum á mér enn þann dag í dag: "and how the hell did it become a coat?" og benti á kápuna.

Ég fór aldrei aftur í þessa kápu.