Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Hér kemur fyrsta smásagan eftir mig sem birt er á opinberum vettvangi. Njótið vel.

Þessi maður er hálfviti, hugsaði hún með sér meðan hún skellti kaffikönnunni í gang, ég er búin að halda þessu blessaða fyrirtæki hans gangandi meðan hann fór til Spánar í afslöppun. Það er allt í lagi að sýna smá virðingu fyrir því sem ég er að gera hér. Helvítis hálfviti.
Hún var ekki búin að vinna þarna lengur en í tæpa þrjá mánuði og fannst hún vera ábyrg fyrir miklu meira en afgreiðslunni einni og sér. Þegar hún var ráðin var starfslýsingin einföld og miðað við hana mátti hún vera sátt við launin en þetta var miklu meira en bara afgreiðslan og símasvörun. Hún var látin hella upp á kaffi og ná í allan mat og þar sem hún var eina kveneintakið á svæðinu var eiginlega ætlast til þess af henni, hún var aldrei beðin um það heldur bara tilkynnt það rétt fyrir alla kaffi- og matartíma. Og það var farið að lenda æði oft á henni að tilkynna kúnnunum leiðinlegu fréttirnar og undirbúa allar mikilvægar uppákomur. Hún þurfti æ oftar að vinna langt fram eftir kvöldum vegna þess að hann ákvað að hann þyrfti á henni að halda.
En nú átti hún að hella upp á kaffi og setja bakkelsið í sætan lítinn bakka og ganga til beina, því mennirnir frá bankanum voru mættir á fund hjá honum. Fund sem hún hafði undirbúið og gert alla rannsóknarvinnuna og haft mikið fyrir því á meðan hann flatmagaði á spánskri strönd í nokkrar vikur. Hann vissi ekkert um málið fyrir utan það sem hún hafði skellt á pappírinn og vísvitandi sleppt nokkrum mikilvægum upplýsingum. Þar sem hann rændi heiðrinum af undirbúning fundarefnisins og þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hann gekk gjörsamlega framhjá hennar þætti í einhverju stóru verkefni hafði hún ákveðið að hefna sín.
Klukkan var að verða fjögur og hún tók upp bakkann og kaffibrúsann og um leið og hún gekk inn í fundarherbergið skellti um leið upp sínu sætasta brosi. "Gjöriði svo vel, strákar mínir, og gangið nú ekki fram af ykkur með vinnu í kvöld. Ég er að fara heim en ef ykkur vantar meira kaffi þá er vélin tilbúin, það þarf bara að kveikja á henni. Bið að heilsa ykkur." Hann þorði aldrei að hreyta í hana í návist bankamanna og hún vissi það. Það hlakkaði í henni meðan hún tók saman dótið sitt og gekk frá skrifborðinu sínu. Áður en hún fór skellti hún á skrifborðið þykku bréfi með uppsögn hennar og ástæðum fyrir tafarlausri brottförinni. Það væri undir honum komið hvort hann vildi gera mál vegna þessa eða ekki. Konan hans yrði ekki ánægð ef þetta yrði að veseni, það var of mikið af upplýsingum í bréfinu til þess að hann slyppi við útskýringar.
Þegar hún kom út var byrjað að rigna en það hafði engin áhrif á skapið hjá henni. Sigurvíman var enn of sterk til að láta nokkra dropa skemma fyrir. Hún var loksins frjáls undan niðurlægingunni og full meðvitundar um að þetta væri kolólöglegt en henni stóð á sama. Hún væri farin af landi brott áður en nokkur áttaði sig á hvert peningarnir hefðu farið. Meðan hún tölti niður götuna jókst rigningin til muna þannig að hún var orðin hundblaut þegar hún loksins náði að strætóskýlinu.
Þegar hún var komin heim lét hún renna í baðkarið og fór úr blautu fötunum. Hún pakkaði niður afgangnum af persónulegasta dótinu sínu með því hugarfari að taka sem allra minnst með sér. Hún var búin að panta herbergi í Keflavík fyrir nóttina en vildi bara kveðja íbúðina, sem hafði kostað hana blóð, svita og tár meðan hún var að læra, með því að fara í síðasta skiptið í bað.
Meðan hún lá í baðinu hugsaði hún um hversu gott það yrði að byrja upp á nýtt. Það var allt skipulagt í þaula. Um þetta leyti daginn eftir yrði hún komin til Kenya og lífið yrði eins og hún vildi hafa það. Hún myndi eignast sitt eigið líf byggt á eigin forsendum.
Hún tók töskurnar og slökkti öll ljós á leiðinni út úr íbúðinni í síðasta skiptið. Það örlaði á söknuði þegar hún sat í leigubílnum og horfði á blokkina hverfa í bakglugganum. Alla leiðina til Keflavíkur hugsaði hún um þetta nýja líf sem beið hennar og vitandi að hún væri með nóg af peningum til að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu næstu árin. Samt var eins og rödd innra með henni væri að vara hana við. Kannski er ekkert betra líf sem bíður hennar hinum megin við lækinn. Hún hristi af sér þessar pælingar, takmarkið var of nærri til að fara að hugsa "hvað ef". En hvað ef..........