Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, nóvember 01, 2003



Hefur það komið fram hvað mér finnst það gaman að horfa yfir bæinn minn þegar ég fer út í sígó?

Snilldin við staðsetninguna á húsinu mínu fyrir utan útsýnið er sú hve öll hljóð í bænum berast skýr upp að dyrum hjá okkur. Þess vegna skemmti ég mér oft ágætlega við að hlusta á samræður þeirra sem leið eiga um aðalgötuna. Og nú áðan hló ég með sjálfri mér þegar ég heyrði í tveimur unglingsstúlkum tjá gleði sína með söng meðan þær gengu heim á leið. Gleðin var sakleysi ungviðsins og allt það fjör sem fylgir æskunni. Ég man þá tíð er ég sjálf gekk hér um götur sárasaklaus með vinkonu minni sem að vísu var aldrei bendluð við sakleysi og við tjáðum gleði okkar með söng. Nú er ég hvorki ung né saklaus. Og ekki geng ég um göturnar þó að vísu hefði ég gott af hreyfingunni. En að fylgjast með þessum stelpum rifjaði upp mörg góð atriði frá unglingsárunum og það greip mig löngun að fara út í gönguferð í þessu fallega vetrarveðri. Ég kláraði sígarettuna, henti henni í stampinn og fór inn í hlýjuna og hætti að hugsa svona bölvaða vitleysu.

Maður tekur ekki upp á neinum áhættuatriðum á gamals aldri.