Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, nóvember 22, 2003

Ég er ekki alveg að skilja þetta trend að það sé best að búa í Rvík.

Ég mætti í siðmenninguna rétt eftir miðnætti í gær og fann strax að það er ekkert gott að vera hérna. Allavega ekki fyrir mig. Það grípur um sig einhver óskiljanleg óþolinmæði og það í meiri mæli en venjulega. Svo fæ ég vott af eyðslusýki, tek eftir fullt af hlutum sem mig vantar ekki en langar í. Til dæmis langar mig ofsalega til að fara og kaupa mér föt, en vitandi það að ég á fullt af fötum sem ég nenni ekki einu sinni að setja í þvottavélina er fáránlegt að ætla að bæta við. Ekki svo að skilja að fötin mín séu það skítug að þau standi af sjálfsdáðum, heldur á ég mann sem setur í vélina. Það sem stendur mér fyrir þrifum er bara það að skila fötunum niður í þvottahús. Svo langar mig líka í fullt af fötum á börnin mín, en þær þurfa ekkert föt því við eyddum svo miklu í þær í sumar. En það er svo freistandi að skoða í barnadeildir og þá sér maður alltaf fullt af fötum sem þær myndu vera alveg ofboðslega sætar í. Og svo eru það jólaskórnir og jólakjólarnir og hárskrautið og dúlludótið og...

Kannski ég ætti fyrst að tala um óþolinmæðina sem grípur mig alltaf hérna, áður en ég fer að tala um eyðslusýkina.
Ég á við alvarlegan skort af þolinmæði að etja þegar ég er heima hjá mér, en þegar ég kem í svona stressumhverfi þá tekur allt út. Ég á mjög erfitt með að garga ekki á bílinn fyrir framan mig: "drullaðu þér frá", saga niður öll rauðu ljósin sem verða á vegi mínum og garga á ókurteist afgreiðslufólk, sem virðist vera krökkt af hér í Reykjavíkinni, að það sé í lagi að segja "góðan daginn" eða "takk fyrir". En hvað er þetta með afgreiðslufólk að vera aldrei á svæðinu þegar mig vantar það? Ég hef ekki farið í margar búðir en aldrei sé ég starfsfólk á svæðinu vera tilbúið að aðstoða mig. Það er annaðhvort að tala í símann eða er statt einhvers staðar á bakvið.
Ég segi bara eins og Jónas R.: Slappið af.