Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, nóvember 02, 2003



Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað ég má vera þakklát fyrir það sem ég hef.

Til dæmis gæti ég verið blökkukona í fátækasta hverfi Jóhannesarborgar. Stritandi við þrif hjá ríkri, hvítri fjölskyldu þar sem maðurinn misnotar mig kynferðislega og konan beitir mig andlegu ofbeldi. Verð samt að vinna þar áfram því heima eru 15 grenjandi börn, öll með berkla af óhreinu vatninu, og kall sem lemur mig eins og harðfisk fyrir að eyða öllum 20 krónunum í mat.

En ég er sem betur fer ekki svo illa stödd. Ég á heima á Íslandi sem er besta land í heimi. Við erum með ferskasta loftið, hreinasta vatnið, besta fiskinn, besta lambakjötið og fallegasta fólkið. Þó teljast margir Íslendingar ekki til gáfuðustu manna í heimi. Það er einn hópur manna hér á landi sem mér finnst standa upp úr með heimsku sinni. Eru það félagar í Félagi Þjóðernissinna. Þeir eru ekki beint að vinna með okkur í að efla stolt okkar sem sérstæðrar þjóðar. Þó er ég ekki að mæla með því að innflytjendur streymi hingað óheftir, þar þarf að gæta hófs eins og í öllu öðru. Og ekki finnst mér þeir beint vera að vinna með okkur hinum í að gæta sérstöðu okkar því mér finnst hugarfarið bera keim af aldargömlum hugsunarhætti bandaríska bjánans í Ku-Klux-Klan eða hvað þeir nú heita.

Og fyrst ég er komin í þá sálma finnst mér ansi margt í okkar ágæta þjóðfélagi bera þónokkurn keim af hugsunarhætti heimskingjanna handan hafsins. Er sú þjóð í það góðum málum að við viljum virkilega vera með það að markmiði að breytast eftir þeirra skilgreiningu á siðmenningu? Er sjálfsálit okkar yndislegu þjóðar ekki á sterkari stoðum byggt? Var það þess vegna sem forfeður okkar strituðu með blóði sínu, svita og tárum fyrir sjálfstæði þjóðarinnar? Til að við gætum hermt eftir þjóð sem verður æ meir í líkingu sökkvandi skips með skipstjóra og stýrimann í algerri afneitun.

Ef ég væri spurð að því hvort ég væri þjóðernissinni myndi ég segja já. Þó gæti ég ekki sagt það með stolti eða án þess að þurfa að útskýra mína sýn á hvað það orð þýðir fyrir mig. Að vera þjóðernissinni er að elska land sitt og þjóð eins og það hefur alltaf verið. Að virða sína arfleifð sem forfeður og -mæður börðust fyrir okkur til handa og að þekkja forsögu síns lands. Að meta menningu sinnar þjóðar meira virði en auðmeltanlega síbylju tísku stærri þjóðar. Allavega fyrir mig.