Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Það er aldeilis að maður vaknar vel á miðvikudagsmorgni.

Ekki búið að vera neinn svefnfriður hér í morgun, Eigendur hf byrjuðu á að hringja rétt eftir átta sem er svosum allt í lagi því ég á tæknilega séð að vera í vinnunni. Það tók samt heljarinnar átak að gefa þeim það sem þeir voru að biðja um. Ég þurfti til að byrja með að hlaupa niður stigann til að ná símanum. Var síðan hálfnuð upp aftur þegar ég skil út á hvað símtalið gengur og þarf að fara niður aftur að ná í gemsann minn, því í honum var eitthvað númer sem þá bráðvantaði. Eftir þá reddingu var ég uppgefin og skreið í bælið aftur, dró sængina upp fyrir haus og fór að sofa.

En svo þegar ég var alveg að sofna aftur hringir dyrabjallan og á tröppunum stóð kona sem var aðframkomin af kaffileysi. Ég er ekki sú manneskja sem læt fólk þjást lengi svo ég bauð henni inn, þó ég hafi verið á náttfötunum með úfið hár og húsið í rúst. Elskulegur maður minn var að sjálfsögðu búinn að sjá fyrir sér konu í kaffiþörf, þó ekki hafi það verið ég í þetta skiptið, og var hann búinn að hafa til kaffið á könnunna. Slátruðum við þeim dropum á mettíma meðan við ræddum saman um allt sem hefur gerst undanfarna daga í okkar indæla samfélagi, sem tók ekki langan tíma því það gerist voðalega lítið í þessum bæ. Það er að segja ef þú hlustar bara á staðreyndir en ekki sögusagnir.

En hún á allar þakkir skyldar fyrir að hafa kippt mér úr mókinu því ég er hressari núna en ég hef verið í marga, marga daga. Svei mér þá, ef ég er bara ekki í stuði til að fara að taka til hérna og jafnvel mæta í vinnuna eftir hádegið. Eins gott að maðurinn minn elskulegur er í vinnunni langt fram eftir degi því honum gætir til að passa aðeins of mikið upp á uppáhalds kveneintakið sitt. Hann myndi biðja mig að taka því rólega og senda mig í rúmið aftur með nýjasta eintakið af Harry Potter, sem ég væri alveg til í ef ég væri ekki komin með ógeð á að vera grænmetið á heimilinu.

Þannig að rusl og þvottur eru í stórhættu í dag......loksins.