Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

mánudagur, desember 04, 2006

Svo ég haldi nú áfram að opinbera dreifbýlistúttuna í sjálfri mér hérna þá smakkaði ég í fyrsta sinn drekaávöxt. Mér finnst þetta hinn fallegasti ávöxtur, litalega séð, en bragðið fannst mér til að byrja með frekar dauft en þegar leið á átið óx áfergja mín því eftirbragðið er assgoti gott. Hagkaup hefur nú haft þessa tegund af ávöxtum og margar fleiri framandi tegundir til sölu í verslunum sínum í þónokkurn tíma. Þar sem þeir eru nú ekki með útibú á Eskifirði eru þessi góðgæti þó nokkuð sjaldséð af túttum eins og mér.
Meðan ég át þennan framandi ávöxt varð mér hugsað til skaparans, einhverra hluta vegna, og ég dáðist að snilli hans til að skapa einmitt svona ávöxt og kímdi yfir nafninu Drekaávöxtur... Sem mér finnst benda sterklega til þess að Guð hafi skapað dreka líka. Hvort þeir hafi síðan getað flogið og spúð eldi er annað mál en ég er nokkuð viss um að drekar séu til.